Leyfisveitingar hjá Matvælaeftirliti

Matvælaeftirlitið gefur út starfsleyfi til fyrirtækja sem framleiða eða dreifa matvælum samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, en einnig til veitingastaða og  gististaða samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

Athygli er vakin á því að ef ætlunin er að reka gististað eða veitingastað þarf einnig að sækja um rekstrarleyfi til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, nema annað hafi verið ákveðið í lögum (sjá nánar í töflu hér að neðan).  Vakin er athygli á að þeir sem ætla að reka heimagistingu, sbr. lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þurfa að skrá starfsemina hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu eða á miðlægu vefsvæði sem sýslumaður heldur utan um, sjá nánari upplýsingar á vefsíðunni www.heimagisting.is.  

Þegar sótt er um leyfi fyrir matsöluvagni, sölubás eða matvælamarkaði þarf umsækjandi að hafa afnotaleyfi fyrir götu- og torgsölu frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. 

Hvaða leyfi þarf ég?

Fyrirtæki / starfsemi Starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur Rekstrarleyfi sýslumanns

Skráningarskylda /

tilkynningarskylda

Torg- og götusöluleyfi
Veitingastaðir (þ.m.t. veitingahús, skyndibitastaðir, krár, kaffihús, samkomusalir og veisluþjónusta) X X (aðeins veitingastaðir með áfengisveitingar í flokki II og III)    
Gististaðir (þ.m.t. hótel, gistiheimili, heimagisting, íbúðagisting) X (ekki heimagisting) X (ekki heimagisting) Heimagisting (hámark 90 dagar á hverju almanaksári)  
Matvöruverslanir X      
Innflutningur á fæðubótarefnum og sala X      
Heildverslun með matvæli X      
Framleiðsla matvæla (þ.m.t. pökkun) X      
Mötuneyti X      
Flutninga- og dreifingamiðstöðvar með matvæli X      
Söluturnar (sjoppur) X      
Vatnsveitur X      
Matsöluvagnar X     X
Sölubásar / matvælamarkaðir X     X
Framleiðendur og/eða innflytjendur matvælasnertiefna     X  
Framleiðendur matjurta X (ræktun, pökkun og önnur vinnsla)   X (aðeins ræktun)  

Hvernig er sótt um starfsleyfi?

Sækja skal um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur áður en starfsemi hefst.

Í hve langan tíma gilda starfsleyfin?

Almennt gilda starfsleyfi í 12 ár.  Árlega gerir Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur eftirlitsáætlun og stefnir matvælaeftirlitið á að fara í eftirlit í eftirlitsskyld fyrirtæki að minnsta kosti einu sinni á ári og er ástand þeirra þá metið.  Starfsleyfi og/eða rekstrarleyfi fyrirtækja eru alltaf til endurskoðunar.

Kjötvinnslur, mjólkurbú og fiskvinnslur

Almennt eru kjötvinnslur, mjólkurbú og fiskvinnslur undir matvælaeftirliti Matvælastofnunar.  Öllum fyrirspurnum um þessi fyrirtæki skal beint til Matvælastofnunar, Austurvegi 64, 800 Selfossi. Sími 530 4800. Veffang: www.mast.is.

Hvað kosta starfsleyfin?

Sjá gildandi gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Umsagnir vegna rekstrarleyfa

Matvælaeftirlitið veitir umsagnir til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu vegna útgáfu rekstrarleyfi til veitingastaða og gististaða skv. lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Leyfadeild sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sími 458 2000, veitir allar nánari upplýsingar um rekstrarleyfi.  Vegna vinnu við umsagnir vegna tækifærisleyfa greiðist tímagjald til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.  Tímagjald er samkvæmt gildandi gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Tilkynningarskyld fyrirtæki

Tilkynningarskyld matvælafyrirtæki hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur eru framleiðendur matjurta, þ.e. fyrirtæki sem eingöngu rækta afurðir sínar (svokallaðir frumframleiðendur) en pökkun og önnur vinnsla afurðanna fer fram á öðrum stað sem hefur starfsleyfi heilbrigðisnefndar til þeirrar starfsemi.  Frumframleiðsla nær einnig til nýtingar villigróðurs.

Framleiðendur og/eða innflytjendur efna og hluta í snertingu við matvæli skulu tilkynna Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um starfsemi sína.  Efni og hlutir eru allar umbúðir, ílát, áhöld, tækjabúnaður, borðbúnaður og öll efni sem slíkir hlutir eru samsettir úr og geta komist í snertingu við matvæli.  Ef framleiðendur og/eða innflytjendur efna og hluta í snertingu við matvæli dreifa matvælum eru fyrirtækin starfsleyfisskyld.  

Nánari upplýsingar um efni og hluti í snertingu við matvæli er að finna á vefsíðu Matvælastofnunar.  Þar má einnig finna lög og reglur um þennan málaflokk.

Eyðublað til að tilkynna Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um starfsemi frumframleiðenda og fyrirtækja sem eingöngu eru með efni og hluti í snertingu við matvæli er í vinnslu.

Greiða þarf fyrir tilkynningu og eftirlit heilbrigðisfulltrúa samkvæmt gildandi gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Vinsamlega hafðu samband við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, hafirðu ábendingu eða fyrirspurn eða hringja í Þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 411 1111.