Hvað er lokaúttekt?

Hún er staðfesting með úttekt byggingarfulltrúa á að byggingu mannvirkis sé lokið og það reist í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Þegar mannvirki er fulllokið og innan þriggja ára frá því að það var tekið í notkun og öryggisúttekt gerð skal gera lokaúttekt á því. Úttektinni er ætlað að ganga úr skugga um að mannvirkið hafi verið reist í samræmi við samþykkta aðal- og séruppdrætti og uppfylli ákvæði mannvirkjalaga og þeirra reglugerða sem framkvæmdina varðar. Hafi mannvirkið ekki verið tekið í notkun fyrir lokaúttekt er hún jafnframt öryggisúttekt. Uppfylli mannvirkið fyrirliggjandi kröfur gefur byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt.

Hverjir geta óskað eftir lokaúttekt?

Byggingarstjóri fyrir hönd eiganda mannvirkis og eftir atvikum eigandi þess geta óskað eftir henni.

Forsendur málsmeðferðar

Sá sem óskar eftir lokaúttekt útfyllir EBB 107, Beiðni um öryggis- eða lokaúttekt, en eyðublaðið er jafnframt gátlisti sem fylla verður út. Útfylltu eyðublaðinu er skilað til þjónustuvers í Borgartúni 12 - 14, 105 Reykjavík ásamt viðeigandi yfirlýsingarblöðum. Greiða verður úttektargjald og er tilkynning um upphæð send í heimabanka greiðanda sem hann greiðir áður en úttekt er gerð. Geri skrifstofa byggingarfulltrúa ekki athugasemd við móttekna úttektarbeiðni og gátlista getur úttektin farið fram.

Framkvæmd úttektar

Byggingarfulltrúi í samráði við beiðenda ákveður úttektartíma. Viðstaddir úttektina auk byggingarfulltrúa skulu vera fulltrúar slökkviliðs og byggingarstjóri. Byggingarstjóri skal tilkynna iðnmeisturum og hönnuði mannvirkisins um lokaúttektina og gefa þeim kost á að vera viðstaddir. Byggingarstjóri skal jafnframt leggja fram frumrit eða afrit samþykktra uppdrátta sem nota skal við úttektina.

Vottorð um lokaúttekt

Fullnægi mannvirkið þeim kröfum sem gerðar eru lögum samkvæmt og byggt hefur verið í samræmi við samþykkta uppdrætti gefur byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð sem hann afhendir byggingarstjóra. Niðurstöðu úttektar skráir byggingarfulltrúi í málakerfi sitt.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Fyrirspurnir berist til embættis byggingarfulltrúa í gegnum þjónustuver borgarinnar, Borgartúni 12 - 14, 105 Reykjavík, síma 4 11 11 11 eða á netfangið upplysingar@reykjavik.is.

Til að bæta þjónustu embættis byggingarfulltrúa eru allar ábendingar og athugasemdir vel þegnar. Þeim má koma á framfæri bréflega og á netfangið byggingarfulltrui@reykjavik.is.