Tímabundin starfsleyfi - matvælamarkaðir og sölubásar/sölutjöld

Matvælamarkaðir og sölubásar með matvæli sem starfræktir eru utandyra í Reykjavík skulu hafa afnotaleyfi frá umhverfis og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12 - 14, 105 Reykjavík, sími 4 11 11 11.  Fáist afnotaleyfi skulu rekstraraðilar (fyrirtæki eða einstaklingar) sækja um tímabundið starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.  Tímabundin starfsleyfi geta gilt að hámarki í þrjá mánuði.  Í starfsleyfi koma fram sértæk starfsleyfisskilyrði fyrir viðkomandi markað/sölubás/sölutjald.  Starfsleyfinu fylgja einnig almenn starfsleyfisskilyrði.


Sérstakar reglur gilda um rekstur sölubása/sölutjalda í miðborg Reykjavíkur á 17. júní.  Skátasamband Reykjavíkur hefur starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til reksturs markaða þennan dag og leigir Skátasamband Reykjavíkur áhugasömum aðilum afnot af sölutjöldum.  Skulu aðilar sem hafa afnot af sölutjöldum Skátasambandsins uppfylla þau skilyrði sem sett eru í reglum og starfsleyfisskilyrðum og þurfa þeir ekki að sækja um sérstakt tímabundið starfsleyfi heilbrigðiseftirlits.  Þeir aðilar sem leigja ekki sölutjöld af Skátasambandi Reykjavíkur skulu uppfylla starfsleyfisskilyrði og sækja um tímabundið starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Almenn starfsleyfi - matvælamarkaðir og sölubásar/sölutjöld

Fyrir stærri matvælamarkaði með fasta staðsetningu (svo sem Kolaportið) gilda sérstök starfsleyfisskilyrði sem samþykkt eru af heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.  Gildistími almennra starfsleyfa fyrir matvælamarkaði og sölubása/sölutjöld eru 12 ár.
 

Tækifærisleyfi frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu

Sækja þarf um tækifærisleyfi fyrir skemmtun eða einstökum atburði sem fram fer á stað sem ekki hefur rekstrarleyfi.  Einnig þarf leyfi fyrir tímabundnum áfengisveitingum.  Leyfi til skemmtunar eða atburða sem ekki er ætlað er að standa lengur en í sólarhring skal sækja um með viku fyrirvara til leyfadeildar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.  Leyfi til skemmtunar eða atburðar sem ætlað er að standa lengur en sólarhring skal sækja um með minnst 30 daga fyrirvara.  Sé skemmtun eða atburður sérstaklega umfangsmikill, svo sem gert ráð fyrir um það bil 3.000 manns og kalli á mikinn undirbúning, skal sækja um leyfi með minnst þriggja mánaða fyrirvara.

Í umsókn um tækifærisleyfi skal gerð grein fyrir hvers konar samkomu er sótt er um leyfi fyrir, það er skóladansleik, tónleikahaldi, dansleik, útihátíð, þorrablóti og þess háttar.

Ef um er að ræða viðburð á borgarlandi þar sem boðið er upp á matvæli, þarf að sækja um tímabundið starfsleyfi. 
 
Ef um er að ræða viðburð á borgarlandi, og ekki er boðið upp á matvæli þarf ekki tímabundið starfsleyfi. 

Matvælaeftirlitið veitir umsagnir um tækifærisleyfi til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Nánari upplýsingar

Leyfisgjöld Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Sjá gildandi gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Götu-og torgsöluleyfi hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Allar nánari upplýsingar um rekstrarleyfi, þ.m.t. tækifærisleyfi, veitir leyfadeild sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, Dalvegi 18, 200 Kópavogi í síma 458 2000 eða á netfanginu leyfi@syslumenn.is.