Miðlæg stýring umferðarljósa
Markvisst er unnið að samtengingu umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu og miðlægri stýringu þeirra, en verkefnið er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Það eru umferðarljós á um 200 stöðum á höfuðborgarsvæðinu og er rúmlega helmingurinn tengdur við miðlæga stýritölvu umferðarljósa (MSU). Áætlanir gera ráð fyrir að á árinu 2022 verði öll umferðarljós á höfuðborgarsvæðinu tengd MSU.
Markmið kerfisins:
- Að stýring umferðarljósa samræmist umferðinni hverju sinni.
- Að veita Strætó og neyðarakstri forgang.
- Að safna umferðarupplýsingum í rauntíma og lágmarka umferðartafir.
- Að vakta og senda sjálfvirkar tilkynningar ef bilanir koma upp.
Tenging við MSU
Miðlæg stýring umferðarljósa (MSU) er unnin með Sitraffic Scala frá Siemens. Kerfið hefur verið uppfært og endurnýjað í gegnum árin, bæði hugbúnaður og vélbúnaður. Árið 2017 var gerður sérstakur þjónustusamningur um reglulegt viðhald hugbúnaðar kerfisins og var síðasta uppfærsla gerð í september 2018.
Í dag eru umferðarljós á um 205 gatnamótum og gangbrautum á höfuðborgarsvæðinu og eru þau langflest umferðarstýrð. Haustið 2019 voru 112 gatnamót/gangbrautir á höfuðborgarsvæðinu tengd við miðlæga stýritölvu umferðarljósa (MSU). Áætlanir gera ráð fyrir að á árinu 2022 nái kerfið til stýringar allra umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu. Einn af kostum þess að tengja umferðarljós við MSU, er að bilunartilkynningar berast um leið og bilunar verður viðvart, þannig að hægt er að bregðast skjótt við.
Núverandi kerfi
Núverandi kerfi er keyrt á svokallaðri miðlægri TASS-stýringu (e. Traffic-Actuated Selection of Signal Programs), sem velur ljósastillingar út frá umferðarmagni hverju sinni. TASS-stýringin hefur verið í notkun síðan 2007 og er helsti ávinningur hennar er að skipting ljósastillinga fer eftir umferðarmagni en ekki fastri tímasetningu eins og áður var.
Höfuðborgarsvæðinu er skipt upp í fimm TASS-svæði:
- Sæbraut
- Miklabraut-Kringlumýrarbraut-Hringbraut-Suðurlandsbraut
- Hafnarfjarðarvegur
- Bústaðavegur
- Breiðholtsbraut-Nýbýlavegur
Ljósastillingarnar sem verða fyrir valinu eru einnig umferðarstýrðar, þ.e.a.s. þau stýrast út frá skynjurum (slaufuskynjarar, ratsjárskynjarar og segulskynjarar). T.d. á Bústaðavegi er alltaf grænt á aðalstefnu og hún fær eingöngu rautt annað hvort þegar óvarðir vegfarendur ýta á hnapp eða þegar ökutæki eru skynjuð á hliðargötum.
Framtíðarkerfi
Sitraffic SCALA hugbúnaðurinn býður upp á að bæta við svokallaðri MOTION-stýringu (e. Method for the Optimization of Traffic Signals In Online Controlled Networks), sem er staðbundin rauntímastýring. Umferðin hefur bein áhrif á stýringu á ákveðnum stað, einum gatnamótum eða einni grænni bylgju. TASS er þá kúplað út á þeim hluta kerfisins og keyrt tímabundið á MOTION. Rauntímastýring hentar vel til stýringar á óhefðbundnu umferðarflæði til dæmis í tengslum við fjölsótta viðburði eða á álagstíma þar sem umferð er komin yfir mettunarmörk gatnakerfisins. Nú er unnið að því að setja upp fyrstu MOTION-stýringuna á fernum gatnamótum Höfðabakka við hliðargötur.
Samhæfing umferðarljósa
Í hverjum stjórnkassa eru eitt til sex mismunandi stýriforrit, sem hvert um sig er í gangi annað hvort á ákveðnum tímum sólarhrings eða í samræmi við skilgreiningar TASS. Öll umferðarljós í Reykjavík eru tímastillt, en auk þess eru þau samhæfð í grænar bylgjur á öllum stofnleiðum, til þess að bæta umferðarflæðið. Græn bylgja þýðir að keðja umferðarljósa er stillt saman þannig að aka má á jöfnum hraða á grænu ljósi innan viðkomandi ljósahóps án þess að stoppa. Jafn hraði er stilltur á 80-100% af leyfilegum hámarkshraða. Umferðarljósin innan hverrar bylgju eru tengd saman og stýritölvan velur þær ljósastillingar á hverju svæði þannig umferðarflæði er í hámarki. Ljósastillingar eru mismunandi eftir tímum dags, þ.e.a.s. á morgnanna er græn bylgja fyrir umferð frá úthverfum í átt að miðbæ en í öfuga átt síðdegis. Sjaldnast er hægt að hafa grænar bylgjur í báðar áttir samtímis vegna legu og staðsetningu gatnamóta.
Forgangur fyrir neyðarakstur og Strætó
Sumarið 2016 voru gerðar breytingar á stýribúnaði umferðaljósa og STREAM-forgangskerfi (e. Simple Tracking Real-time Application for Managing traffic lights) tekið í notkun. Stjórnbúnaður var settur í neyðarbíla slökkviliðsins, bæði slökkvi- og sjúkrabifreiðar og fer þá kerfið sjálfkrafa í gang þegar bifreiðarnar aka á forgangsljósum (bláum ljósum) og tryggir forgang á viðkomandi ljósum. Markmið verkefnisins er að tryggja aukið öryggi í neyðarakstri, bæði fyrir þá sem eru í neyðarakstrinum en ekki síður almenna umferð sem neyðaraksturinn snertir hverju sinni. Einnig er lykilatriði þegar fólk er í lífshættu að stytta viðbragðstíma, ekki síst þegar umferð er mikil.
Strætó á greiðari leið um gatnamót með stýringunni, þó það sé ekki forgangsstýring eins og hjá slökkviliðinu. Stýringin virkar þannig hjá Strætó að tæki í vagninum skynjar þegar vagn nálgast gatnamót og þá lengist tíminn sem grænu ljósin loga í akstursstefnu þeirra. Búnaður í 60 vögnum hefur verið uppfærður til að virkja forgangsstýringuna og reynslan er góð. Samstarfsaðilar í þessu verkefni eru Reykjavíkurborg, Vegagerðin, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Strætó. Auk þeirra hafa Velferðarráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands komið að verkefninu vegna sjúkrabifreiða.
Umferðarskynjarar
Söfnun umferðarupplýsinga er grundvallaratriði í miðlægri stýringu umferðar. Til að skynja og meta magn umferðar hafa verið settir niður umferðarskynjarar, svokallaðir „TASS - skynjarar“ (e. Traffic Actuated Signal Plan Selection) sem eru einskonar spólur eða dollur sem settar eru ofan í malbikið í u.þ.b 120 m fjarlægð frá gatnamótum. Við venjulegar aðstæður nær bílaröðin við rautt ljós því ekki yfir þá. Skynjararnir eru tengdir við stjórnkassa og þaðan berast boðin eftir samskiptanetinu til stjórntölvunnar. Auk þess er stuðst við upplýsingar frá eldri skynjurum sem víða eru staðsettir við umferðarljós.
Í september 2018 voru einnig settir upp umferðarskynjarar af gerðinni TEU5. TEU5 er búnaður sem tengist þráðlaust við MSU og safnar upplýsingum um umferðarmagn, hraða og stærð bíla. Með þessum nýju skynjurum er mögulegt sjá ársveifluna í umferðarflæðinu og reikna út prósentuhlutfall hvers klukkutíma fyrir sig. Einnig metur skynjarinn hraða umferðar og skynjar einnig stærð bíla.
Alls eru skynjarar á 101 stöðum á höfuðborgarsvæðinu.
- Upplýsingar um þjónustustig umferðarflæðisins má sjá hér í rauntíma
- Upplýsingar um umferðarmagn og hraða á völdum stöðum má sjá hér í rauntíma
Stjórntölva og þrjár útstöðvar
Í Borgartúni 12-14, þar sem stjórntölvan er staðsett, er einnig útstöð með virkum aðgangi að stjórntölvunni. Þar er hægt að fylgjast með virkni kerfisins, hanna ný stýriforrit og setja í kerfið. Í þjónustumiðstöð umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur, Stórhöfða 7 - 9, er útstöð með aðgangi að rekstrarupplýsingum frá kerfinu. Þaðan er viðgerðum og viðhaldi sinnt á umferðarljósum, stjórnkössum og umferðarskynjurum á höfuðborgarsvæðinu. Í þjónustumiðstöð Vegagerðarinnar í Hafnarfirði, við Hringhellu 4, er einnig útstöð með aðgangi að rekstrarupplýsingum frá kerfinu. Þaðan er viðgerðum og viðhaldi sinnt á umferðarljósum, stjórnkössum og umferðarskynjurum á þjóðvegum innan höfuðborgarsvæðisins.
Samskiptanet
Samskipti milli stjórnstöðvar og umferðarljósa eiga sér stað með IP tengingu í gegnum ljósleiðarakerfi eða GPRS-kerfi. Þessi tenging sameinar kosti öryggis og mikillar flutningsgetu. Talsverður sparnaður næst fram með því að hagnýta burðarnet Reykjavíkurborgar sem tengir allar stofnanir borgarinnar saman, en lagning ljósleiðara er samt sem áður umfangsmikið verkefni. Ljósleiðarar eru lagðir í ídráttarrörum á milli umferðarljósa og áfram í tengipunkta inn á burðarnetið. Stjórntölvan er staðsett í húsnæði umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12 - 14 og tengist þar beint inn á burðarnetið. Veruleg umfram flutningsgeta er í þessu nýja kerfi sem býður meðal annars upp á flutning gagna frá myndavélum. Einnig er möguleiki að tengja stjórnkassa við stýrikerfi umferðarljósa í gegnum GPRS sem er notað þar sem engin ljósleiðaratenging er fyrir hendi eða of kostnaðasamt að tengja. Flutningsgeta GPRS-kerfisins er jafn góð og ljósleiðaratenging.