Úlfarsárdalur

Uppbygging er hafin í fyrsta áfanga í Úlfarsárdal þar sem skipulag gerir ráð fyrir um það bil 780 íbúðum í fjölbýli og sérbýli. Á svæðinu er einstök náttúrufegurð, útsýni, fjallasýn og mikil nálægð við útivistarsvæði í stórum skala; fjallið, heiðina, dalinn og ána. Einnig er um að ræða síðasta byggingarsvæðið í Reykjavík í suðvesturhlíð sem býður upp á mikla möguleika með þarfir borgarbúa um búsetu að leiðarljósi.

Reynisvatnsás

Íbúðarhverfið við Reynisvatnsás er norðan við Reynisvatn, á milli byggðanna í Grafarholti og Úlfarsárdal. Óbyggt svæði liggur að hverfinu að suðaustan- og austanverðu og verndarsvæði Úlfarsár afmarka skipulagssvæðið til norðurs. Hverfinu hallar til vesturs og mótast byggðin af þeim aðstæðum, fallegu útsýni og nálægð við náttúru dalsins. Aðkoman að svæðinu er núna um Reynisvatnsveg en hún er einnig fyrirhuguð frá byggðinni í Úlfarsárdal. Í íbúðahverfinu er gert ráð fyrir um 106 íbúðum auk hugsanlegra aukaíbúða.

Sléttuvegur

Byggingaréttur neðan Sléttuvegar var boðinn út árið 2007 og er uppbygging í fullum gangi í hverfinu. Skiplagssvæðið er um 7 hektarar að stærð.

Á svæðinu er fyrirhugað að Hrafnista reisi um 100 íbúðir fyrir aldraða, hjúkrunarheimili og þjónustumiðstöð fyrir hverfið með innisundlaug. Einnig að Samtök aldraðra byggi 50 - 60 íbúðir fyrir félagsmenn líkt og á næstu lóð við Sléttuveg 19 - 23. Þá er gert ráð fyrir nemendagörðum, alls um 100 íbúðum, bæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Á miðju svæðisins eru fyrirhuguð þriggja hæða fjölbýli með 50 - 60 íbúðum og á neðri hlutanum er gert ráð fyrir sérhæðum, raðhúsum og sambýli fyrir fatlaða.

Næst Kringlumýrarbraut verður hljóðmön með gróðri til að bæta hljóðstig íbúðabyggðarinnar. Byggðin er hæst í norðausturhorni svæðisins, 6 hæðir, en lægst í suðvestri, 1 hæð. Markmiðið er að nýta landið vel, bæta umhverfisleg gæði og að byggðin falli vel að hallandi landslaginu. Svæðið var áður nýtt af Skógræktarfélagi Reykjavíkur og er umtalsverður trjágróður á landinu sem nýttur verður eins og kostur er til að auka gæði byggðarinnar.