Nýtnivikan verður haldin hátíðlega í Reykjavík fimmta árið í röð daganna 21. – 25. nóvember. Þema vikunnar að þessu sinni Að draga úr umbúðum. Nýtnivikan er hluti af umhverfis- og auðlindastefnu Reykjavíkurborgar.

NÝTUM OG NJÓTUM 

Umbúðir eru stór hluti af neysluvenjum nútímans og flestar þeirra enda sem úrgangur eftir að þær hafa þjónað tilgangi sínum. Talið er að 157 kg af umbúðum falli til á hvern íbúa í Evrópu á hverju ári. Hluti af þessum umbúðum eru einnota burðarpokar en talið er að í Evrópu séu 1 milljón einnota burðarpoka í notkun á hverri mínútu en meðalnotkunartími burðarpoka er talin vera um 25 mínútur áður en þeir enda í blönduðum úrgangi, í endurvinnslu eða úti í náttúrunni.

Á Íslandi er talið að hver einstaklingur noti um 200 poka á ári, það er um 16 pokar á viku fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu. Hægt er að sporna við myndun umbúðaúrgangs með einföldum hætti og geta allir lagt sitt að mörkum til að draga úr þeirri úrgangsmyndun sem á sér stað vegna umbúðanotkunnar. Þetta má meðal annars gera með því að velja vörur án umbúða eða í umfangsminni umbúðum, að endurnota krukkur, box o.fl. sem fellur til og með að flokka og skila umbúðum til endurvinnslu.

Netfang vikunnar er nytnivika@reykjavik.is

Af hverju Nýtnivikan:

  • Í Evrópu verða árlega verða til um 500 kg af úrgangi fyrir hvern íbúa
  • Úrgangur verður til vegna neysluvenja og framleiðsluferla
  • Meðhöndlun úrgangs kostar samfélagið stórar fjárhæðir árlega
  • Töluverður umhverfislegur kostnaður fylgir einnig úrgangsmyndun
  • Með því að koma í veg fyrir myndun úrgangs getum við því sparað okkur og umhverfinu mikið álag og kostnað

Viðburðir

10 heimilisráð um lágmörkun umbúða
Hvað: Reykjavíkurborg gefur út 10 heimilisráð um lágmörkun umbúða í prentvænni útgáfu á heimasíðu borgarinnar sem áhugasamir geta tileinkað sér.  
Hvenær: Mánudagurinn 21. nóvember.
Hvar: reykjavik.is

Umbúðir – hvenær nauðsyn og hvenær sóun?
Hvað: Reykjavíkurborg og Umhverfisstofnun standa fyrir málþingi um lágmörkun umbúða - fyrir rekstraraðila og framleiðendur og innflytjendur umbúða
Hvenær: Fimmtudaginn 24. nóvember kl. 8:30-12:00.
Hvar: Ráðhúsi Reykjavíkur.

Aukin nýting matar hjá Reykjavíkurborg
Hvað: Landvernd vinnur með völdum vinnustað/vinnustöðum borgarinnar í að lágmarka matarsóun. Reynslan verður nýtt sem viðbót við Græn skref stofnanna borgarinnar.
Hvenær: Mánudagur 21. nóvember –föstudagur 25. nóvember.
Hvar: Vinnustaður á vegum borgarinnar.

Kortleggjum umbúðir
Hvað: Facebook leikur Reykjavíkurborgar þar sem þátttakendur keppast við að skrá niður hvaða umbúðir falla til í þeirra daglega lífi á hverjum degi út vikuna. Þátttakendur geta svo deilt myndum og ráðum um hvernig hefði verið hægt að koma í veg fyrir að þessar umbúðir hefðu fallið til. Besta ráðið verður verðlaunað fimmtudaginn 1. desember með verðlaunum í anda nýtnivikunnar.
Hvenær: Mánudagur 21. nóvember –föstudagur 25. nóvember.
Hvar: Á facebook síðu Reykjavíkurborgar www.facebook.com/reykjavik

Einn af styrkleikum Nýtnivikunnar er hversu margir ólíkir aðilar hafa staðið að henni í gegnum tíðina og hefur hún vakið sífellt meiri athygli með hverju ári. Vikan er tilvalin vettvangur til að skapa umræðu og flagga því sem vel er gert og vekja athygli á því hvað mætti betur fara í málefnum tengdum neyslu og úrgangi. Einnig að fjalla um rannsóknir og halda viðburði tengda nýtni, úrgangsmálum, innkaupum, umhverfismennt, umhverfisvernd o.fl.

Reykjavíkurborg hefur haldið utan um dagskrá Nýtniviku og hvetur sem flesta til að leggja þessum mikilvæga málaflokki lið og skipuleggi viðburð í tengslum við vikuna. Áhugasamir aðilar geta haft samband í gegnum netfangið: nytnivika@reykjavik.is

Viltu fylgjast með umbúðanotkun heimilisins?  Haltu umbúðadagatal

Nýtum og njótum, spil Nýtniviku.