Þegar öll umbeðin umsóknargögn hafa borist þá skráir starfsmaður embættis byggingarfulltrúa umsóknina í gagnagrunn embættisins. Umsóknin er yfirfarin af starfsmönnum embættis byggingarfulltrúa og gengið úr skugga um að umsótt framkvæmd uppfylli ákvæði laga og reglna um mannvirki og byggingar, skipulagsskilmála og annað sem málið varða. Embætti byggingarfulltrúa leitar einnig umsagnar annara aðila eftir því sem við á og lög og reglugerðir gera kröfu um, þ.e.a.s skipulagsfulltrúa, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Orkuveitu Reykjavíkur, Vinnueftirlits ríkisins, Faxaflóahafna, samgöngudeildar umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Að öllu jöfnu má búast við að það taki starfsmenn embættis byggingarfulltrúa og umsagnaraðila fimm vinnudaga að fara í gegnum gögn umsóknar.

Ef sótt er um byggingarleyfi og deiliskipulag  liggur ekki fyrir er málið sent skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu sbr. 44. gr. skipulagslaga  nr. 123/2010.  Ef um er að ræða breytingu á deiliskipulagi er málið sent skipulagsfulltrúa til meðferðar.  Málsmeðferð fyrir grenndarkynningu fer fram hjá skipulagsfulltrúa tekur minnst 4 vikur. Vakin er athygli á að fyrrgreindar málsmeðferðir falla undir gjaldskrá vegna kostnaðar við skipulagsvinnu og útgáfu framkvæmdaleyfis í Reykjavíkurborg nr. 1111/2014 vegna kostnaðar við skipulagsvinnu o.fl.[EHG3]

Eftir yfirferð starfsmanna embættis byggingarfulltrúa og umsagnaraðila er umsókn lögð fyrir afgreiðslufund byggingarfulltrúa þar sem lagt er lokamat á hana. Að fundi loknum fá umsækjendur tilkynningu um afgreiðslu málsins á uppgefin tölvupóstföng, auk þess sem bréf er sent á lögheimili viðkomandi. Tilkynningin segir einungis til um það hvort áform um framkvæmd uppfylli þær lagalegu kröfur sem gerðar eru, en er ekki staðfesting á útgáfu byggingarleyfis og veitir ekki leyfi til að hefja framkvæmdir. Til að fá útgefið byggingarleyfi og þar með leyfi til að hefja framkvæmdir þarf frekari vinnslu málsins, en því verklagi er lýst á síðunni Útgáfa byggingarleyfa[HP4] . Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa eru að jafnaði alla virka þriðjudaga.