Sérkennsla í leikskólum
Börn geta fengið sérstakan stuðning eða sérkennslu í leikskólum gegn mati viðurkenndra greiningaraðila. Það sama á við á sjálfstætt starfandi leikskólum. Meginmarkmiðið er að tryggja jafnræði allra barna í öllu leikskólastarfi óháð líkamlegu og andlegu atgervi.
Hverjir eiga rétt á þjónustunni?
Börn sem vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika þurfa sérstaka aðstoð, eiga rétt á stuðningi í leikskólanum undir handleiðslu sérfræðinga.
Úthlutað er vegna tveggja flokka en einnig er um að ræða ákveðið fjármagn til stuðnings sem leikskólarnir ráðstafa sjálfir vegna barna með minniháttar þroskaröskun.
Hvernig er sótt um þjónustuna?
Leikskólastjóri sækir um úthlutun til verkefnisstjóra sérkennslu á skrifstofu skóla- og frístundasviðs á þar til gerðu eyðublaði. Öllum umsóknum skal fylgja niðurstöður greiningar.
Ráðgjöf vegna sérkennslu
Ýmis ráðgjöf er veitt foreldrum um starfsemi leikskóla vegna stuðnings, sérúrræða og sérkennslu. Ráðgjöfin getur verið við starfsmenn leikskóla og/eða með aðkomu sérkennsluráðgjafa sem staðsettir eru í þjónustumiðstöðvum borgarinnar.
Boðið er upp á almenna ráðgjöf til foreldra og ráðgjöf vegna sérstuðnings/sérkennslu í leikskólum Reykjavíkurborgar eða sjálfstætt starfandi leikskólum í Reykjavík. Ráðgjöf til foreldra er veitt endurgjaldslaust. Það sem fram fer í viðtölum er trúnaðarmál.
Sérhæfðir leikskólar
Leikskólarnir Múlaborg, Sólborg og Suðurborg eru sérhæfðir í vinnu með fötluðum börnum. Þeir sinna einnig mikilvægu ráðgjafarhlutverki við aðra leikskóla.
Múlaborg hefur sérhæft sig í að mæta þörfum barna með ýmsar fatlanir og þá helst með hreyfihömlun og fjölfötlun. Í skólanum er unnið markvisst að því að örva mál og tjáningu, svo sem með PCS myndum og tákni með tali.
Sólborg hefur sérhæft sig í að mæta þörfum barna með heyrnarskerðingu, heyrnarleysi og börnum sem hafa farið í kuðungsígræðslu. Hugmyndafræðin byggir á því að búa börnunum tvítyngt málumhverfi þar sem nám fer fram á íslensku og táknmáli, auk þess sem þau fá heyrnarþjálfun.
Suðurborg hefur sérhæft sig í vinnu með einhverfum börnum.
Leikskólarnir hafa sérhæft sig í að þróa leiðir að sameiginlegu námi fatlaðra og ófatlaðra barna þannig að þörfum allra sé mætt.
Fyrirspurnir og/eða ábendingar
Fyrirspurnir og/eða ábendingar sendist til verkefnisstjóra sérkennslu á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs á netfangið Fjola.thorvaldsdottir@reykjavik.is