Sérskólar
Í Reykjavík eru tveir sérskólar, Klettaskóli og Brúarskóli. Skólarnir þjóna nemendum með fötlun eða alvarlegan geðrænan vanda. Klettaskóli þjónar öllu landinu. Í Kópavogi er Arnarskóli, sjálfstætt starfandi sérskóli, sem rekinn er sem sjálfseignarstofnun. Hann er heildstæður grunnskóli fyrir fötluð börn með fjölþættar þarfir.
Fyrir hverja eru sérskólarnir?
Skólarnir eru fyrir börn sem eru á grunnskólaaldri og með greiningu frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, barna- og unglingageðdeild Landspítala, Heyrnar- og talmeinastöð eða Sjónstöð Íslands.
Klettaskóli
Klettaskóli er einn af grunnskólum Reykjavíkur og er sérskóli fyrir nemendur með þroskahömlun. Skólinn er fyrir nemendur með:
- miðlungs, alvarlega og djúpa þroskahömlun með eða án viðbótarfatlana;
- væga þroskahömlun og skilgreinda viðbótarfötlun/fatlanir svo sem einhverfu, blindu, heyrnarleysi og alvarlega hreyfihömlun.
Þátttökubekkur er sérhæft námsúrræði undir stjórn Klettaskóla en með aðsetur í almennum grunnskóla.
Nemendur njóta faglegrar þjónustu og þekkingar sérskólans en taka jafnframt þátt í starfi og samfélagi hins almenna skóla eftir því sem tilefni gefst til.
Brúarskóli
Brúarskóli er einn af grunnskólum Reykjavíkur og er sérskóli fyrir nemendur í 4. - 10. bekk. Skólinn er fyrir nemendur:
- með alvarlegan geðrænan og tilfinningalegan vanda;
- sem eiga í félags- og hegðunarerfiðleikum;
- sem eru komnir í vanda vegna fíkniefnaneyslu og/eða afbrota.
Arnarskóli
Arnarskóli er heildstæður grunnskóli fyrir börn með þroskafrávik á grunnskólaaldri. Atferlisíhlutun er notuð í námi og kennslu barnanna. Með heildstæðum skóla er átt við að þjónustan er veitt alla virka daga ársins, skóli, frístund og sumarfrístund fer öll fram á sama stað með sama starfsfólkinu.
Samþykkt hefur verið að Reykjavíkurborg greiði að hámarki framlag til Arnarskóla vegna ellefu nemenda. Forgang eiga nemendur með lögheimili í Reykjavík sem nú þegar eru í Arnarskóla að því gefnu að uppfyllt séu skilyrði verklags um meðferð skóla- og frístundasviðs vegna umsókna í sjálfstætt rekinn sérskóla.
Hvernig er sótt um skólavist í Klettaskóla?
Foreldrar sem hyggjast sækja um skólavist í Klettaskóla fyrir börn sín, skila umsókn til skólans fyrir 1. mars ár hvert. Með umsókn fylgi greiningargögn og skýrslur leik- eða grunnskóla vegna nemandans eftir því sem við á. Fagráð um innritun er við skólann sem fjallar um og gerir tillögur um afgreiðslu umsókna.
Hægt er að sækja um skólavist í Klettaskóla rafrænt á heimasíðu skólans.
Hvernig er sótt um í Brúarskóla?
Skólavist í Brúarskóla er tímabundið úrræði í 1 eða 2 annir, með það að markmiði að gera nemendur hæfari til að stunda nám í almennum grunnskóla. Foreldrar sem hyggjast sækja um skólavist í Brúarskóla fyrir börn sín skila inn umsókn til skólans á þar til gerðum eyðublöðum sem finna má á heimasíðu skólans.
Hvernig er sótt um í Arnarskóla?
Þar sem Arnarskóli er utan sveitarfélags er umsóknarferlið tvíþætt. Annars vegar þarf að sækja um mat á stöðu nemandans í námi og skólavist hjá skóla- og frístundasviði og hins vegar hjá Arnarskóla.
Forsjáraðilar sem hyggjast sækja um skólavist í Arnarskóla fyrir börn sín skila inn umsókn til skóla- og frístundasviðs fyrir 1. febrúar ár hvert og til Arnarskóla fyrir 1. mars ár hvert.
Ferlið er með þeim hætti að foreldrar sem óska eftir skólavist í Arnarskóla fyrir barn sitt geta óskað eftir að fram fari mat á stöðu nemandans í námi til samræmis við samþykkt verklag áður en foreldrar sækja um í Arnarskóla. Óska þarf eftir slíku mati fyrir 1. febrúar ár hvert, sjá verklag vegna meðferðar umsókna í sjálfstætt rekinn sérskóla.
Jafnframt þarf að leggja fram beiðni um skólavist í grunnskóla í sveitarfélagi utan lögheimilis nemanda fyrir sama tíma.
Samþykkt hefur verið að Reykjavíkurborg greiði að hámarki framlag til Arnarskóla vegna ellefu nemenda. Forgang eiga nemendur með lögheimili í Reykjavík sem nú þegar eru í Arnarskóla að því gefnu að uppfyllt séu skilyrði verklags um meðferð skóla- og frístundasviðs vegna umsókna í sjálfstætt rekinn sérskóla.
Umsókn um námsvist í grunnskóla í sveitarfélagi utan lögheimilis nemanda
Berist skóla- og frístundasviði beiðni um mat á stöðu nemandans í námi vegna ráðgerðar umsóknar í Arnarskóla mun skóla og frístundasvið kalla eftir frekari gögnum frá forsjáraðilum svo sérstakt matsteymi geti lagt mat á umsókn til samræmis við samþykkt verklag um umsóknarferlið. Sjá hér.
Fyrirspurnir og/eða ábendingar
Nánari upplýsingar veita skólastjórar skólanna. Einnig má senda inn fyrirspurnir á sfs@reykjavik.is og hringja í síma 4 11 11 11.