Vellirnir eru lagðir fyrsta flokks gervigrasi og flestir eru upphitaðir. Þeir eru girtir af með viðargirðingu sem virkar sem batti og mörkin falla inn í girðinguna. Vallarsvæðið er upplýst svo nýta megi völlinn allt árið um kring.

Sparkvellir hafa slegið í gegn sem ein vinsælasta leikaðstaða fyrir börn, unglinga og fullorðna.  Hönnunarforsendur fyrir boltagerði má skipta í tvennt annars vegar á skólalóðum og hinsvegar á íþróttasvæðum. 

Íþróttasvæði

Sparkvellir á íþróttasvæðum er notað af knattspyrnuiðkendum sem eru í takkaskóm. Það gervigras sem kemst næst því að líkjast nátúrulegu grasi á knattspynuvöllum er gúmmífyllt gervigras á mjúku undirlagi. Það er mjög æskilegt að hita upp völlinn svo ekki þurfi að fella niður æfingar vegna snjókomu eða frosts. Krafan um lýsingu fer eftir því hvort eigi að vera hægt að taka upp leiki yfir vetrarmánuðina eða ekki.

Skólalóð

Sparkvellir á skólalóðum eru notaðir að stærstum hluta af börnum og unglingum á flatbotna skóm (strigaskóm) sem kallar á aðra uppbyggingu gervigrass en er á knattspyrnuvöllum. Skólarnir vilja ekki gúmmífyllt gras út af óþrifnaði. Ekki er nauðsynlegt að hita upp leiksvæðið vegna snjókomu. Krafan um lýsingu þarf ekki að vera meiri en á öðrum leiksvæðum.

 Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Ábendingar og fyrirspurnir um sparkvelli/boltagerði getur þú sent með tölvupósti á netföngin upplysingar@reykjavik.is, og  usk@reykjavik.is.