Aðgerðaráætlun í úrgangsmálum Reykjavíkurborgar

Aðgerðaáætlun í úrgangsmálum Reykjavíkurborgar var samþykkt í janúar 2016. Áætlunin gildir fyrir árin 2015 - 2020 og er markmið hennar að draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu og endurnýtingu. Aðgerðaáætlun borgarinnar felst í 42 aðgerðum. Einnig eru sett fram tíu leiðarljós í málaflokknum og megináherslur um þjónustu grenndar- og endurstöðva.

Kannanir hafa sýnt að borgarbúar eru duglegir að flokka til endurvinnslu og vilja flokka enn meira og kemur aðgerðaráætlunin til móts við þann vilja. Kostnaður við umbúðir er hluti af kostnaði hverrar vöru en neytendur geta haft mikil áhrif til að draga úr umbúðum með innkaupavenjum sínum. Sérstök áhersla er lögð á úrgangsforvanir þar sem miðað er að því að draga úr þeim úrgangi sem myndast og þar með að draga úr fjárhagslegum og umhverfislegum kostnaði meðhöndlunar. Þannig eru níu aðgerðir sem snúa beint að úrgangsforvörnum svo sem að draga úr notkun einnota umbúða, minnka matarsóun og hvetja til endurnotkunar hluta.

Aðgerðaáætlun í úrgangsmálum Reykjavíkurborgar

Stefna Reykjavíkurborgar í úrgangsmálum

Í umhverfis- og auðlindastefnu Reykjavíkurborgar, sem er hluti af aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, segir að dregið verði úr úrgangi til urðunar og endurnýting og endurvinnsla aukin.  Stefnt er á að Reykjavíkurborg veiti rekstraraðilum stuðning og leiðbeiningar um vistvænan rekstur og innleiðingu vistvænna lausna.

 

Þá verði grenndarstöðvar komnar í göngufæri fyrir alla íbúa fyrir árið 2030 en stefnan er einnig sett á að úrgangsflokkun verði í boði á almenningssvæðum borgarinnar í formi marghólfa úrgangsstampa. Í umhverfis- og auðlindastefnunni er lögð áhersla á að skoða leiðir til að gera endurnýtingu að raunhæfum valkosti í formi götumarkaða, bílskúrssala eða að endurnýtanlegir hlutir verði skildir eftir á götum bæjarins á ákveðnum tímum.


Stefnt er að bættri meðhöndlun og nýtingu á óvirkum úrgangi sem fellur til m.a. vegna niðurrifs húsa eða sem jarðefni úr grunnum. Urðun á lífrænum úrgangi verði hætt árið 2020 í takt við stefnumótun ríkisins.


Finna má svipaðar áherslur í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar verkefnunum „Græna borgin“ og „Vistvænni hverfi“, en þar er aðaláherslan á að a) draga úr myndun úrgangs, b) stuðla að endurnotkun og endurvinnslu, c) nýta orku úr úrgangi og d) tryggja gott aðgengi að úrgangsílátum og grenndarstöðvum.

Samþykkt Reykjavíkurborgar um meðhöndlun úrgangs

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs ákveður sveitarstjórn fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Sveitarfélög skulu útfæra fyrirkomulagið í samþykkt um meðhöndlun úrgangs og er nú í gildi Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg nr. 123/2017. Sveitarstjórn ber einnig ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur.

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar hefur eftirlit með meðhöndlun úrgangs í Reykjavík skv. 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs, og að farið sé að gildandi samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík.
 

Svæðisáætlun

Sameiginleg svæðisáætlun sveitarfélaga á Suðurlandi, Suðvesturlandi og Vesturlandi, sem SORPA bs. á aðild að fyrir hönd Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, byggir að öllu jöfnu á úrgangsþríhyrningnum þó svo að lítil áhersla sé þar lögð á úrgangsforvarnir.

Forgangsröðun áætlunarinnar er að fyrst fari fram efnisvinnsla til endurnýtingar og endurvinnslu, síðan gasgerð og jarðgerð fyrir þann hluta úrgangs sem til þess hentar, brennanleg efni og lífræn efni sem ekki henta til gas- og jarðgerðar verða brennd eða breytt í brenni og brennt annars staðar. Einungis verði urðuð óvirk ólífræn efni sem ekki eru endurnýtanleg eða brennanleg. Minnka skal magn úrgangs auk þess sem stærri hluti hans skal endurnýttur eða endurunninn. Stefnt er á mikinn samdrátt í urðun en þó mælt með að nýta núverandi urðunarstaði til urðunar á úrgangi sem ekki er hægt að finna annan farveg. Þá er markmiðið einnig að hámarka flokkun lífræns úrgangs til gasframleiðslu. Svæðisáætlunin gildir fyrir svæðið frá Gilsfjarðarbotni að Markarfljóti.

Hafa samband

Tekið verður við fyrirspurnum og pöntunum í síma 4 11 11 11 eða á netfangið sorphirda@reykjavik.is. Benda skal á að hússtjórn fjöleignarhúsa þarf að óska eftir breytingum sem hefur áhrif á gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs. Símatíminn er milli kl. 8:30-9:00 og 13:00-14:00.