Hvað felst í sumarstarfinu?

Reykjavíkurborg býður upp á sumarstarf í öllum hverfum borgarinnar frá því grunnskólum lýkur á vorin þar til kennsla hefst á haustin. Dagskrá og viðfangsefni eru mismunandi yfir sumarið. Áhersla er lögð á skapandi og skemmtilegt starf, jafnt innan dyra sem utan, en útivist skipar stóran sess í sumarstarfinu.

Hvað kostar í sumarstarfið?

Í sumarfrístund frístundaheimilanna fyrir 6 - 9 ára er greitt fyrir viku í senn fyrir dvalartímann 9:00 - 16:00. Hægt er að kaupa aukalega gæslu fyrir og eftir þann tíma, það er kl. 8:00 - 9:00 og/eða 16:00 - 17:00. Í smiðjunum fyrir 10 - 12 ára er oftast greitt fyrir hverja smiðju sem stendur yfir í um það bil 2 - 6 klukkustundir. Sjá gjaldskrá. Sumaropnun fyrir unglinga í félagsmiðstöðvum er yfirleitt gjaldfrjáls, nema ákveðið sé að gera eitthvað sem kostar og þá er greitt fyrir efnisgjald og ferðir. Þegar um er að ræða siglinganámskeiðin í Siglunesi og dýranámskeiðin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum er greitt fyrir hvert námskeið. Frekari upplýsingar má nálgast á Frístundavef Reykjavíkurborgar.

Hvernig er skráð í sumarstarfið?

Skráning í sumarstarf  fer fram á sumar.fristund.is. Skráning hefst yfirleitt í kringum sumardaginn fyrsta ár hvert, en upplýsingar um það berast foreldrum grunnskólabarna með tölvupósti.

Ef foreldrar geta ekki nýtt sér rafræna innritun geta þeir farið í frístundamiðstöðvar borgarinnar og á þjónustumiðstöðvar hverfanna og fengið aðstoð við skráningu.

Ekki er hægt að skrá börn í sumarstarf Reykjavíkurborgar í gegnum síma. Starfsfólk þjónustumiðstöðva, frístundamiðstöðva og þjónustuvers Reykjavíkurborgar (sími: 4 11 11 11) geta þó leiðbeint símleiðis ef forráðamenn eru við nettengda tölvu. Skráning í sumarfrístund, siglinganámskeið og dýranámskeið þarf að fara fram fyrir kl. 12:00 á föstudögum eigi barn að byrja á mánudeginum á eftir, en foreldrum er þó bent á að skrá tímanlega þar sem vikurnar geta fyllst fljótt.

Upplýsingar um skráningu í sumarstarf íþrótta- og æskulýðsfélaganna er að finna á Frístundavef Reykjavíkurborgar og á upplýsingasíðum hvers sumarstarfstilboðs fyrir sig.

Hvenær er sumarstarfið?

Sumarfrístund frístundaheimilanna hefst þegar grunnskólum lýkur á vorin og stendur til boða þar til kennsla hefst á haustin, fyrir utan sumarleyfi sem eru yfirleitt upp úr miðjum júlí og fram yfir verslunarmannahelgi. Þar er boðið upp á gæslu frá kl. 8:00 þar til dagskrá hefst kl. 9:00 og eftir að dagskrá lýkur kl. 16:00 til 17:00.

Yfirleitt er boðið upp á sumaropnun félagsmiðstöðva og smiðjur fyrir 10 - 12 ára fram að sumarleyfi frístundamiðstöðvanna um miðjan júlí. Félagsmiðstöðvarnar opna svo aftur í ágúst þegar vetrarstarfið hefst.

Hvað er gert í sumarstarfinu?

Í sumarstarfi frístundamiðstöðvanna fara krakkarnir í margs konar vettvangsferðir, sund, siglingar, fjöruferðir og ótal margt fleira. Dagskrá sumarfrístundar birtist á heimasíðum frístundaheimilanna og upplýsingar um sumaropnun félagsmiðstöðvanna og smiðjur fyrir 10 - 12 ára birtast á heimasíðum félagsmiðstöðvanna. Samstarf við ýmsa aðila skapar möguleika á fjölbreyttri þjónustu við börnin. Ef farið er út fyrir starfsstaðinn með börnin fylgir starfsfólk ítarlegum öryggisferlum. Starfsfólk er 20 ára eða eldra og hefur hlotið fjölbreytta fræðslu.

Fyrir hverja er sumarstarf Reykjavíkurborgar?

Sumarstarf frístundamiðstöðvanna er fyrir börn á aldrinum 6 - 16 ára (þau sem eru að klára 1. - 10. bekk). Hitt húsið býður upp á sumarstarf fyrir ungmenni 16 ára og eldri.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Hægt er að koma fyrirspurnum, ábendingum og kvörtunum á framfæri við skóla- og frístundasvið Reykjavíkur, Borgartúni 12 - 14, 105 Reykjavík. Sími: 4 11 11 11. Netfang: sfs@reykjavik.is.