Reykjavíkurborg taldi ekki forsendur til að taka þátt í verkefninu. Síðan haustið 2015 hefur Reykvíkingum staðið til boða að fá græna tunnu undir plast við heimili sín. Íbúar geta sett plastið laust í grænu tunnuna sem losuð er í hirðubíl sem keyrir efnið í móttökustöð SORPU þar sem plastið er baggað og loks sent til Svíþjóðar í endurvinnslu. Reynslan sýnir að gæði plasts sem safnast hefur í grænu tunnuna eru mjög góð og endurvinnslumöguleikar efnisins því miklir.  Eftirfarandi eru helstu rök fyrir þeirri leið sem Reykjavíkurborg hefur valið.

1. Plast sem sett er í grænu tunnuna þarf ekki að setja í plastpoka

Borgin hefur lagt áherslu á að íbúar geti stundað plastpokalausan lífsstíl ef vilji er til. Leið Reykjavíkurborgar um flokkun endurvinnsluefna í sér ílát dregur úr þörfinni fyrir poka. Þar sem bæði endurvinnsluefnum, pappírsefnum og plasti, og blönduðum úrgangi má skila í lausu í tunnurnar.  Vélræn flokkun plast frá blönduðum úrgangi gerir ráð fyrir að plasti sé safnað í plastpoka sem síðan er blásið frá. Taka þarf tillit til umhverfisáhrifa þess að krefja íbúa um að verða sér úti um plastpoka til að setja plastið í.

2. Mesti árangur plastendurvinnslu er þegar plasti er safnað í einum straumi við heimili.

Rannsókn Evrópusambandsins frá 2015 á árangri mismunandi söfnunarleiða 28 höfuðborga landa innan sambandsins sýnir að með söfnun í einum straumi næst að meðaltali 9 kg á hvern íbúa af plasti til endurvinnslu og allt upp í 32 kg á íbúa. Þegar plasti er safnað með öðrum endurvinnsluefnum er söfnunin 6 kg á íbúa og hæsta söfnunarhlutfall 12 kg á íbúa. Engin borganna safnaði plasti með blönduðum úrgangi svipað ætlunin er með vélrænni flokkun SORPU bs.

Plastsöfnun í Reykjavík í sér tunnu hófst á haustmánuðum 2015 og síðan þá hefur söfnun á plasti aukist um 120%. Í gegnum kerfið safnast 5,2 kg á íbúa á ári sem er 15% meira en raunin var í tilraunaverkefni SORPU bs. á Seltjarnarnesi sem ákvörðun um vélræna flokkun byggir á. Græna tunnan og grenndargámar taka við um 2,9 kg að meðaltali á hvern íbúa í Reykjavík á meðan endurvinnslustöðvar taka við 2,3 kg.

3. Flokkun plastefna í sér tunnu skilar endurvinnsluefnum af háum gæðum og þannig mestum umhverfisávinning flokkunar til endurvinnslunnar.

Mikill munur er á endurvinnsluhlutfalli mismunandi flokkunarleiða. Rannsóknir víðsvegnar í heiminum sýna að gæði endurvinnsluefna sé yfirleitt meiri þegar þau eru flokkuð frá á upprunastað og safnað í sér tunnu sökum mengunar frá öðrum úrgangi. Því hreinni sem endurvinnsluefnin eru þeim mun meira fer til endurvinnslu og þeim mun meira er greitt fyrir þau í gegnum úrvinnslusjóðskerfið.

Unnið er að því að þróa framleiðslu á díselolíu úr blöndu úrgangsplasts. Ef plast sem safnast er ekki hæft til endurvinnslu mun það að líkindum rata í díselframleiðslu. Hafa þarf í huga að endurvinnsla plasts er meira en 10 sinnum hagkvæmari aðferð út frá loftslagssjónarmiðum en vinnsla díselolíu og ættu því söfnunaraðferðir og úrgangsmeðhöndlun að miðast að því að hámarka hlutfall til efnisendurvinnslu með að tryggja gæði og hreinleika plastsins.

4. Söfnun plasts í einum straumi eykur vitund íbúa

Rannsóknir sýna að aukin vitund íbúa náist með flokkun heima fyrir sem hefur áhrif á heildarmagn úrgangs og er flokkunin þannig forvörn í sjálfu sér.  Flokkun plastefna í sér tunnu felur í sér meiri vitundarvakningu en þegar plastinu er blandað saman við aðra úrgangsflokka við söfnun.

5. Þrjár tunnur við heimili ekki hamlandi þáttur

Með því að safna plasti í þau ílát sem fyrir eru, þ.e. gráu tunnuna, er m.a. gert ráð fyrir því að fjöldi íláta við heimili sé hamlandi þáttur í valkostum söfnunar á endurvinnsluefnum. Að íbúar geti ekki safnað plasti sér í tunnur þar sem hún komist ekki fyrir við heimil þeirra. Í Reykjavík geta íbúar valið sjálfir hvort þeir vilja hafa viðbótar ílát við heimili eða skila sjálfir á grenndar- og/eða endurvinnslustöðvar. Með því að hafa tunnu undir plast valfrjálsa er það lagt í hendur íbúana hvort þeim hentar að hafa tunnu undir plast við heimili sitt eða sleppa tunnu og fara með plastið sjálfir.

Skv. viðhorfskönnun SORPU bs. og Reykjavíkurborgar telja tæplega 60% íbúa höfuðborgarsvæðisins sig hafa pláss fyrir þrjár tunnur eða fleiri við heimili sitt. Í fjölbýlum má skipta út gráum tunnum þegar ílát undir endurvinnsluefni er bætt við.

6. Sérsöfnun á plasti í sér tunnu er vel þekkt leið sem skilar árangri

Vélræn flokkun plasts til endurvinnslu úr blönduðum úrgangi með þeim hætti sem SORPA hefur ákveðið að ráðast í hefur engin þekkt fordæmi.  Óvissa er um árangur og eiginleika plastsins til endurvinnslu og þykkir því ekki forsvaranlegt að leggja af núverandi kerfi til söfnunar á plasti, grænu tunnuna.

Íbúar flokka plastið frá í þeirri trú að það rati til endurvinnslu. Reykjavíkurborg leggur áherslu á að tryggja að sú fyrirhöfn íbúa sé ekki til einskis. Söfnun á plasti í sér tunnu eins og Reykjavíkurborg hefur ráðist í hefur reynst vel og allt efni sem safnast ratar til endurvinnslu.