Opna teikningavef.

Hvar finn ég teikningar af húsum í Reykjavík?

Til að fá aðalteikningar af húsum er farið beint inn á teikningavef byggingarfulltrúa. Þar er slegið inn heimilisfang og húsnúmer og viðeigandi teikningar valdar.

Athugið að heimilisfang getur innihaldið fleiri en eitt númer, til dæmis í fjölbýlishúsi eða raðhúsi, þá þarf að slá inn frá  - til (til dæmis Borgartún 8 - 16). Einnig er hægt að fara í ítarleit og slá inn aðrar og/eða fleiri breytur, til dæmis landnúmer eða lýsingu.

Til að nálgast séruppdrætti, svo sem burðarþols- og lagnateikningar þarf að koma í Þjónustuver Reykjavíkurborgar, Borgartún 12-14.  Opið er fyrir teikningar kl. 08:20 – 16:00 alla virka daga.“

Teikningar í fullri upplausn

Hjá þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12 - 14 eru teikningar fáanlegar í fullri stærð. Teikningaafgreiðsla er opin virka daga frá kl. 8.20 - 16.00. Fyrirspurnir er hægt að senda á netfangið upplysingar@reykjavik.is eða með því að hafa samband í síma 4 11 11 11.

Varðandi aðgang almennings að teikningum

Öll gögn í vörslu embættis byggingarfulltrúa Reykjavíkur, sem hlotið hafa formlega afgreiðslu, eru opinber skjöl. Sem slík eru þau aðgengileg almenningi. Þar á meðal eru teikningar að mannvirkjum innan borgarinnar. Í 10. grein upplýsingalaga er fjallað um takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna. Þar kemur fram í 1. tl. 1. mgr. að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál. Almenningi er því ekki veittur aðgangur að teikningum af húsnæði sem eru þess eðlis. Íbúðarhús teljast ekki á meðal þeirra og eru teikningar af þeim því aðgengilegar almenningi, sem fyrr segir, í pappírsformi og rafrænt.