Þétting byggðar
Vöxtur borgarinnar á sér ekki eingöngu stað í nýjum hverfum heldur er mikið þróunarstarf í gangi innan eldri hverfa borgarinnar, bæði til varðveislu eldri byggðar sem og betri nýtingar lóða. Þar er fyrir hendi grunnþjónusta, svo sem skólar, verslanir, heilsugæsla, gatnakerfi og lagnir. Þétting byggðar er því hagkvæmur og eftirsóknarverður kostur fyrir Reykvíkinga.
Reykjavíkurborg hefur stuðlað að þéttingu byggðar með því að deiliskipuleggja eldri hverfi borgarinnar og greiða með því fyrir uppbyggingu vannýttra lóða. Í mörgum tilvikum er framkvæmdin á hendi einkaaðila.
Sem dæmi um þéttingu byggðar má nefna svokallaðan Ölgerðarreit við Njálsgötu, en þar var atvinnusvæði gert að íbúðabyggð þegar Ölgerð Egils Skallagrímssonar var flutt í nýtt húsnæði. Einnig hefur verið mikil endurnýjun byggðar beggja vegna við Borgartún. Auk þess er fyrirhuguð mikil endurnýjun byggðar norðan Laugavegar og við Mýrargötu.