Þjóðhátíðardagurinn 17. júní
Í mörg horn er að líta fyrir hátíðarhöldin á 17. júní. Pétur Ársælsson hjá umhverfis-og skipulagssviði er einn þeirra sem um fjölda ára hefur séð um að gera allt tilbúið fyrir dagskrána í miðborginni. „Við sjáum meðal annars um að loka götum sem liggja að hátíðarsvæðinu í Kvosinni í samráði við lögregluna. Til þessa verks þarf töluverðan búnað, umferðarmerki og lokunargrindur, og er honum ekið frá bækistöðinni okkar snemma dags þann sautjánda og sett upp,“ segir Pétur.
Sæti fyrir 200 manns
Umferðardeildin sem Pétur leiðir stillir einnig upp um 200 stólum á hátíðarsvæðinu á Austurvelli við styttu Jóns Sigurðssonar. Stólarnir, sem eru fyrir innlenda og erlenda gesti, eru á afgirtu svæði, en Pétur og félagar setja þá girðingu einnig upp. Enn eitt „smáatriðið“ er svo að koma fyrir sérstakri grind við fótstall styttu Jóns Sigurðssonar, sem forseti lýðveldissins leggur blómakrans á. Kransagrind og fánastangir við leiði Jóns Sigurðssonar í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu er einnig í umsjá umferðardeildarinnar.
Fánarnir setja hátíðarblæ á borgina
Uppsetning á fánastöngum og statífum á hátíðarsvæðinu og flöggun, er í verkahring umferðardeildarinnar. Pétur, sem ávarpaður hefur verið fánaborgarstjóri af vinnufélögum sínum, segir að öll þessi vinna við undirbúning hátíðarinnar sé tímafrek og krefjist nákvæmni svo tímasett atriði gangi upp. Umferðardeildin hefur sinnt skátum í Reykjavík með burðarfána og létta í skrúðgöngur sem tengjast hátíðarhöldunum.
Í upphafi skyldi endinn skoða
Við lok dagskráratriða og hátíðarlok þarf að taka allt saman sem sett hefur verið upp. Sú vinna stendur langt fram á morgun þess átjánda og hún er oft erfið og tímafrek þar sem komast þarf með tæki og tól inn á svæði þar sem mannfjöldi er í alls kyns ásigkomulagi eftir skemmtan kvöldsins og gæta þarf varúðar svo að ekki hljótist slys af. Starfsmenn deildarinnar hafa oft á tíðum þurft að fást við gesti sem eitthvað hafa misskilið inntak hátíðarinnar.