Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár bent á að notkun nagladekkja innan borgarmarka er óþörf. Dýpra mynstur hjólbarða en áður, kannanir á samsetningu svifryks, betri aðstæður fyrir vistvæna samgöngumáta og góð vetrarþjónusta gatna styðja þá ábendingu.

Dýpt mynsturs í hjólbörðum hefur áhrif á hversu gott grip þeirra er. Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja er krafist þriggja millimetra lágmarksdýptar mynsturs á vetrardekkjum fólksbifreiða. Ökumönnum er gert að nota slík dekk á tímabilinu 1. nóvember til 15. apríl. Lögreglan getur sektað ökumann um 80 þúsund fyrir bifreið á nagladekkjum utan þess tímabils.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 - 2030 er það markmið sett að hlutdeild almenningssamganga og gangandi og hjólandi vaxi verulega á næstu árum og mun það einnig bæta loftgæði í borginni.

Hvað er svifryk?

Svifryksmengun er ein af helstu ástæðum heilbrigðisvandans sem rekja má til mengunar í borgum. Svifryk er fínasta gerð rykagna sem eiga greiða leið í öndunarfærin. Stór hluti eða yfir 80% af svifrykinu í Reykjavík stafar af bílaumferð.

Uppruni svifryks:  Rannsókn EFLA, 2017

malbik 48,9%
sót 31,2%
jarðvegur 7,7%
bremsur 1.6%
salt 3,9%
annað svifryk 6,8%

Niðurstöðurnar styðja eindregið þann grun að vægi sóts í svifryki hefur vaxið mjög á síðustu árum sem má sennilega rekja til mikillar aukningar bílaumferðar og hækkandi hlutfalls díselbíla.

Hlutfall: Talið var hlutfall negldra dekkja þriðjudaginn 3.mars 2020. Hlutfallið skiptist þannig að 41% ökutækja var á negldum dekkjum og 59% var á öðrum dekkjum.

Loftgæði: Hægt er að fylgjast með loftmengun í Reykjavík hér: Loftgæði.