Stýrikerfi umferðarljósa

Nýtt stýrikerfi umferðarljósa var tekið í notkun haustið 2007. Með því stóreykst sveigjanleiki í því að bregðast við breytilegu umferðarálagi. Öll umferðarljós í borginni eru tímastillt en auk þess er stór hluti samhæfður í grænar bylgjur til þess að auðvelda umferðarflæðið. Kerfið vaktar einnig bilanir og gerir þannig kleift að bregðast skjótt við og hefja viðgerðir. Það safnar upplýsingum sem nýtast í því að lágmarka tafir í umferðinni við mismunandi aðstæður.

Nánar um miðlægt stýrikerfi umferðarljósa.

Gangbrautarljós sem skynja vegfarendur

Gangbrautarljós af nýrri gerð umferðarljósa sem skynja gangandi vegfarendur hafa verið sett upp á sex stöðum í borginni; yfir Dalbraut (gegnt þjónustuíbúðum aldraðra og geðdeild Landspítalans), yfir Fjallkonuveg við Gagnveg, (vestan við sundlaugina og íþróttasvæðið), yfir Hamrahlíð (við Hlíðaskóla), yfir Háaleitisbraut, við Snorrabraut (við Grettisgötu) og á Sundlaugarvegi (við Gullteig).

Skynjarinn fylgist með vegfarandanum og lætur græna ljósið loga þar til hann er kominn yfir. Með þessu fyrirkomulagi er ljósstýringin löguð að vegfarendum sem fara hægar yfir og akandi umferð aðeins stöðvuð þann tíma sem nauðsynlegt er hverju sinni.

Eins og á öllum gangbrautarljósum þurfa gangandi vegfarendur að ýta á hnapp til að panta ljósin. Það sem einkennir þessa gerð ljósa er að græni kallinn birtist á skjá fyrir ofan hnappinn í stað þess að vera á staurnum handan götunnar. Skynjarabúnaður tryggir að græna ljósið logar þar til vegfarandi er kominn yfir.