Vatnsvernd
Um vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins gildir samþykkt nr. 555/2015 en markmið samþykktarinnar er að tryggja verndun grunnvatns vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins þannig að gæði neysluvatns á vatnstökustað uppfylli ávallt kröfur sem gerðar eru í gildandi löggjöf. Þannig er stuðlað að hámarkshollustu og gæðum ómeðhöndlaðs neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar með því að koma í veg fyrir óæskileg áhrif af völdum athafna, starfsemi og umsvifa á vatnsverndarsvæðum vatnsbóla á svæðinu. Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinast um samþykktina. Heilbrigðiseftirlitin þrjú á höfuðborgarsvæðinu mynda framkvæmdastjórn sem hefur umsjón með vatnsverndarsvæðinu. Fundargerðir framkvæmdastjórnar um vatnsverndarsvæðið má sjá hér til hægri. Til að nálgast eldri fundargerðir þarf að hafa samband við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.
Almennt um vatnsverndarsvæðið
Höfuðborgarsvæðið er á jaðri mikils hrauna- og grágrýtisflæmis. Berggrunnurinn er allur mjög lekur og gleypir í sig nær alla úrkomu. Mestöll úrkoma sem fellur á höfuðborgarsvæðið rennur því með grunnvatnsstraumum til sjávar. Meginvatnsverndarsvæðið teygir sig frá Bláfjöllum í norðvestur að þéttbýlismörkum svæðisins. Í suðvestri nær svæðið að landamörkum við Vatnsleysustrandarhrepp, í suðri að mörkum Grindavíkur en í austurátt að mörkum sveitarfélagsins Ölfuss.
Flokkun verndarsvæðisins
Vatnsverndarsvæðinu er skipt í fjóra flokka eftir þeim kröfum sem gerðar eru til verndunar svæðisins. Brunnsvæði; er í næsta nágrenni vatnstökustaðar, er algjörlega friðað fyrir óviðkomandi umferð, framkvæmdum og starfsemi nema á vegum vatnsveitunnar. Grannsvæði; tekur við af brunnsvæði og stærðin ákvarðast af viðkvæmni svæðisins með tilliti til t.d. lektar og sprungna. Allar framkvæmdir og starfsemi sem geta ógnað öryggi vatnsöflunar eru bönnuð. Fjarsvæði; er aðal ákomusvæði fyrir grunnvatnsstrauma og öll nýting lands þarf að falla að forsendum vatnsverndar. Öryggissvæði; nýting skal vera í samræmi við skipulagsáætlanir og starfsemi sem getur haft í för með sér mengun er óheimil. Sjá nánar samþykkt nr. 555/2015, reglugerð nr. 1999/796 um varnir gegn mengun vatns og kort af vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins.
Fyrirspurnir og/eða ábendingar
Vinsamlega hafðu samband við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, hafirðu ábendingu eða fyrirspurn til Heilbrigðiseftirlitsins eða hringja í Þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 411 1111.