Sömu leiðbeiningar gilda í allri borginni. Til grundvallar liggja umferðarlög nr. 77/2019, sem gilda umfram þessar leiðbeiningar eða aðrar.

 

Lestun og losun skal fara fram á stöðum þar sem slíkt er heimilt, á tíma sem það er heimilt, skal ganga fljótt fyrir sig og má ekki valda öðrum vegfarendum hættu eða óþægindum. Frágangur vöru og tiltekt telst ekki til lestunar og losunar farms.

 

Ökutæki skal stöðva þannig að það (sjá nánar 28. gr. umferðarlaga):

 • Valdi ekki hættu eða óþarfa óþægindum fyrir vegfarendur.  
 • Sé hægra megin götu, nema annað sé gefið til kynna með skiltum eða merkingu.
 • Sé ekki á stað sem er ætluð undir aðra umferð, svo sem gangstétt, göngustíg, göngugötu, hjólarein, hjólastíg eða sérmerktum akreinum
 • Sé ekki á umferðareyjum, grassvæðum eða öðrum svipuðum svæðum.

 

Heimilt er að stöðva vegna vörulestunar eða –losunar:

 • Í almennum bifreiðastæðum. Ef gjaldskylda er á svæðinu á þeim tíma sem lestun eða losun fer fram þarf að greiða stöðugjald fyrir það.
 • Við götukant, jafnvel þó svo að bannað sé að leggja ökutæki (umferðarmerki B21.11B21.11).
 • Við brunahana, í snúningshaus botnlangagötu og utan merktra stæða í vistgötum.
 • Á göngugötum, á ákveðnum tíma dags sem tilgreindur er á umferðarmerkjum við akstursleiðir inn á göngugöturnar.

 

Óheimilt er að lesta eða losa (sjá nánar 29. gr. umferðarlaga):

 • Utan heimilaðs tíma, þar sem tími lestunar og losunar er takmarkaður.
 • Þar sem bannað er að stöðva ökutæki (umferðarmerki B24.11B24.11 og undirmerki heimilar ekki vörulosun) eða skv. umferðarlögum, s.s.:
  • Á gangstétt, gangstíg eða á hjólastíg.
  • Á umferðareyjar eða svipaða staði.
  • Á gangbraut eða í minna en 5 m fjarlægð frá henni.
  • Á vegamótum eða í minna en 5 m fjarlægð frá næstu brún akbrautar á þvervegi.
  • Þannig að skyggi á umferðarmerki, umferðarljós eða takmarki sýn vegfaranda.
  • Þar sem akbraut er skipt með óbrotinni mið- eða deililínu, eða svo nálægt að það torveldi akstur á rétta akrein.
  • Á merktu stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks.
  • Á biðstöð hópbifreiða innan 15 metra frá merki.
  • Á merktu stæði fyrir leigubifreið eða hópbifreið.
  • Á merktu stæði ætluð bifreið til rafhleðslu.
  • Á merktu stæði ætluðu lögreglu eða sjúkrabifreið.
  • Á merktu stæði ætluðu reiðhjóli.
  • Á merktu stæði ætluðu bifhjóli.
  • Á merktu stæði ætluðu fólksbifreiðum.

Ýtið hér fyrir gagnvirkt kort yfir vörulosunarsvæði í miðborginni á Borgarvefsjá.

vorulosun-flowchart.png