LUKR er samstarfsverkefni Umhverfis- og skipulagssviðs, Orkuveitu Reykjavíkur og Mílu ehf. um víðtækan, rafrænan kortagrunn sem tengdur er margvíslegum upplýsingum úr gagnagrunnum á borð við Fasteignamat ríkisins og þjóðskrá.
LUKR var brautryðjandi landupplýsinga hér á landi en samstarfið byrjaði 1988. Í LUKR er að finna grunnupplýsingar um alla innviði borgarinnar (götur, lóðir, hús, lagnir o.s.frv.) auk þess sem tengingar við þjóðskrá opna möguleika á margvíslegum lýðfræðiupplýsingum.

Landupplýsingakerfi (einnig nefnd landfræðileg upplýsingakerfi) eru tölvukerfi ætluð til innsetningar, samtengingar og úrvinnslu á bæði myndrænum gögnum og textagögnum sem eiga það sameiginlegt að tengjast ákveðnum stöðum eða svæðum. Gagnasöfn LUKR eru mjög yfirgripsmikil og í stöðugum vexti. Þau skiptast í mörg svonefnd gagnaþemu sem hvert um sig geymir upplýsingar um ákveðna tegund landupplýsinga, til dæmis byggingar, lóðamörk, hæðarlínur, götukanta og fleira.

Upplýsingunum má skipta í grafískar upplýsingar og tengdar upplýsingar eða eigindir. Útlínur húss með staðsetningum í hnitakerfi borgarinnar eru dæmi um hið fyrrnefnda en ýmsar upplýsingar sem tengjast húsinu eru dæmi um hið síðarnefnda.

Landupplýsingar á Umhverfis- og skipulagssviði eru í forsvari fyrir verkefnið, annast rekstur þess og veita allar upplýsingar um það (lukr@reykjavik.is).