Í mars 2009 samþykkti Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur viðbragðsáætlun um loftgæði, skv. reglugerð um loftgæði nr. 787/1999, fyrst allra sveitarfélaga á Íslandi. Viðbragðsáætlunin tekur til skammtímaaðgerða til að koma í veg fyrir að farið sé yfir heilsuverndarmörk, hvað varðar loftmengun vegna mismunandi mengunaruppsprettna. Í áætluninni er fjallað um öll helstu mengunarefni í andrúmslofti út frá þekktum uppsprettum og til hvaða aðgerða er hægt að grípa. Viðbragðsáætlunin var síðast uppfærð árið 2020.

Í tengslum við viðbragðsáætlunina er starfandi viðbragðsteymi sem metur hvort senda eigi út viðvaranir til almennings um að loftgæði séu líkleg til að fara yfir heilsuverndarmörk eða séu þegar yfir mörkum og spáir fram í tímann um loftgæði. Viðbragðsteymið ákveður einnig hvort fara eigi út í mótvægisaðgerðir á hverjum tíma og þá hverjar. Í viðbragðsteyminu eru aðilar frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar og skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands. Einnig er í teyminu fulltrúi frá Vegagerð ríkisins.

Almenningur getur fylgst með niðurstöðum mælinga sem staðsettar eru í Reykjavík á slóðinni /loftgaedi eða með því að fara beint inn á loftgæði.is.