Verkefnið Vinsamlegt samfélag varð til við sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs í eitt svið; skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Með vinsamlegu samfélagi er átt við samfélag þar sem framkoma allra einkennist af virðingu, samkennd og ábyrgð. Þar er einelti ekki liðið en þegar þörf krefur er tekið skipulega á því í samræmi við eineltisáætlun skólans/frístundamiðstöðvarinnar og stefnu borgarinnar.  

Mikilvægt er að samræma eins og kostur er viðhorf og skilaboð allra starfsmanna um framkomu og samskipti til barnanna í borginni og efla það starf leik- og grunnskóla og frístundamiðstöðva sem stuðlar að vinsamlegu samfélagi meðal barna og starfsmanna.

Vinsamlegt samfélag miðar að því að styðja við gerð virkra eineltisáætlana og viðeigandi verkferla á starfsstöðum. Verkefnið fékk hvatningarverðlaun mennta- og menningarmálaráðuneytisins 2015.  

Helstu verkefni
Að innleiða viðhorf, þekkingu og færni hjá starfsfólki í því skyni að stuðla að vinsamlegu samfélagi á öllum starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs. 
Starfshópur um verkefnið stendur fyrir samráðsfundum í hverfum, ráðstefnum, upplýsingagjöf, fræðslu og miðlun reynslu og þekkingar þátttakenda. Einnig beitir starfshópurinn sér fyrir samstarfi við fræðaheiminn um rannsóknir og þróun í málaflokknum.

Gátlisti
Starfshópurinn hefur sett fram gátlista sem er leiðbeinandi fyrir þá sem vinna að gerð eineltisáætlana á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs. Hann samræmir áætlun um forvarnir, inngrip og eftirfylgd í eineltismálum í öllum hverfum borgarinnar. Gátlistinn var unninn í víðtæku samráði starfsfólks skóla- og frístundasviðs, fulltrúa foreldra og þjónustumiðstöðva.  

Fulltrúar í stýrihópi:
Sigríður MarteinsdóttirGuðný ReynisdóttirÓlöf Kristín Sivertsen, Gísli Ólafsson og Sigrún Sveinbjörnsdóttir allt starfsmenn á skrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.